Biðin brátt úr sögunni?

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
2.304 manns hafa nú beðið í þrjá mánuði eða lengur eftir aðgerðum og öðrum meðferðum á legudeildum Landspítala. Þar af hafa 1.853 manns beðið svo lengi eftir skurðaðgerð. Hafa ýmsar aðgerðir verið ákveðnar til að sporna við vandanum, m.a. í samstarfi við Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðina á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þangað verður sjúklingum sem fara í liðskiptaaðgerðir á LSH m.a. boðið að fara eftir aðgerð og ljúka legunni.

Þrátt fyrir þetta og fleiri aðgerðir til að vinna á biðlistum munu mannekla í hjúkrun og ófullnægjandi lausnir varðandi langvistunarsjúklinga „þó áfram ógna því jafnvægi sem við eygjum milli framboðs og eftirspurnar þjónustu", skrifar Jóhannes Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á LSH, í nýjasta hefti starfsemisupplýsinga spítalans.

Leitað til gjafasjóða

Flestir sjúklingar bíða eftir augasteinsaðgerðum á LSH vegna skýs á auga og er biðin nú 12-13 mánuðir miðað við afköst síðustu mánaða. Sjúklingum sem biðu aðgerðarinnar hafði fækkað verulega en á þessu ári var tekin upp ný aðgerð vegna hrörnunarsjúkdóms í augnbotni og hefur skurðstofan ekki annað þörfinni á hvoru tveggja. Með framlagi gjafasjóða er nú verið að afla nýrra tækja til deildarinnar og verður bætt húsnæðisaðstaða tekin í notkun nú í septemberlok. Markmiðið um minna en sex mánaða bið ætti því að nást á fyrri hluta næsta árs. Til skoðunar er að beina hluta aðgerðanna til aðila utan spítalans.

Þá hefur 261 maður þurft að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð á hjartadeild. Þrátt fyrir nálægt 70% aukningu kransæðaþræðinga hefur biðlisti lengst. Því eru áform um að fjölga rannsóknarstofum úr tveimur í þrjár og fjölga þannig þræðingum án þess að bæta við starfsfólki svo nokkru nemi.

Nú bíða 283 manns eftir aðgerð á lýtalækningadeild Landspítala, þar af hafa 244 beðið í þrjá mánuði eða lengur. Alllöng bið hefur lengi verið eftir brjóstaminnkunaraðgerðum á deildinni.

Mat Jóhannesar lækningaforstjóra LSH er að það eigi rót sína að rekja til þess að allir læknar þeirrar sérgreinar eru aðeins í hlutastarfi við spítalann. Þrátt fyrir viðleitni hefur ekki tekist að laða lækna í fullt starf við deildina.

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert