Bönkum ofbauð kröfuharka nemendafélaga

Eftir Atla Fannar Bjarkason - atli@bladid.net
Bankarnir hafa að miklu leyti dregið sig út úr því að styrkja nemendafélög framhaldsskólanna. Ástæðurnar eru þær að kröfur nemendafélaganna hafa hækkað mikið síðustu ár, en félögin hafa farið fram á milljónastyrki. Þá eru til dæmi um að formenn hafi farið fram á persónulegar greiðslur í skiptum fyrir viðskipti við bankana. Þetta hefur Blaðið eftir heimildarmanni úr fjármálageiranum sem ekki vill láta nafns síns getið.

Í Blaðinu í gær kom fram að dæmi séu um að bankarnir hafi yfirboðið hver annan í baráttunni um að fá að styrkja nemendafélögin. Þá var haft eftir fyrrverandi formanni nemendafélags að styrkir hefðu verið í boði gegn því að félagið útvegaði bankanum viðskiptavini. Benedikt Sigurðarson hjá Kaupþingi hafði samband við Blaðið í kjölfar fréttarinnar og sagði bankann hættan að styrkja nemendafélög. Hann vildi ekki útlista ástæðurnar sem lágu að baki. Þá segir talsmaður Landsbankans að tekin hafi verið ákvörðun um að vera ekki með í þessum slag.

„Neytendasamtökin hafa mætt í skóla og séð bankastarfsmenn sitja innan um krakkana með félagaskrá nemenda og merkja við nýja viðskiptavini um leið og þeir kaupa miða á skólaball," segir Þuríður Hjartardóttir hjá Neytendasamtökunum. Hún segir samtökin hafa skipt sér af samskiptum bankanna við nemendur frá árinu 2001.

Engar reglur eru til um aðgang banka að nemendum. Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund, sagði í Blaðinu í gær að óljóst væri hver bæri ábyrgð. „Menn vilja alltaf koma ábyrgðinni á skólann, en mér finnst ábyrgðin liggja hjá foreldrum og viðkomandi krakka," sagði hann.

Nánar er fjallað um málið í Blaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert