Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og Vatnamælingar ríkisins munu færast frá landbúnaðarráðuneytinu um áramótin, skv. minnisblaði um breytingar á verkaskiptingum ráðuneyta sem forsætisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær.
Þetta eru ekki einu verkefnin sem færast frá landbúnaðarráðuneytinu því báðir landbúnaðarháskólarnir, á Hólum í Hjaltadal og á Hvanneyri, flytjast þaðan og yfir til menntamálaráðuneytisins. Eitt verksvið færist til landbúnaðarráðuneytisins frá umhverfisráðuneytinu en það er matvælasvið Umhverfisstofnunar.
Til þess að stjórnsýslulegt forræði á þessum verkefnum færist milli ráðuneyta þarf að breyta lögum og verður það gert með svonefndu bandormsfrumvarpi sem forsætisráðherra mun væntanlega mæla fyrir á fyrstu dögum þingsins. Þetta eru ekki einu verkefnin sem verða færð á milli ráðuneyta.