Fyrsta konan formaður Læknafélags Íslands

Sigurbjörn Sveinsson lét af formennsku í Læknafélagi Íslands á aðalfundi félagsins í dag eftir átta ára starf. Við formannstaumunum tekur Birna Jónsdóttir röntgenlæknir og er hún fyrsta konan sem gegnir þessu embætti í 90 ára sögu félagsins. Birna bauð sig ein fram til formanns og var því sjálfkjörin. Hún hefur undanfarin sex ár setið í stjórn félagsins.

„Allt hefur sinn tíma undir sólinni og ég tel það mjög mikilvægt að stjórn samtaka sem þessara gangi reglulega í endurnýjun lífdaga,“ segir Sigurbjörn. „Jafnvel þótt Birna sé reyndur stjórnarmaður hefur hún ekki reynt við þetta verkefni áður og því munu vafalítið fylgja henni nýir straumar og ferskleiki.“

Spurður um helstu verkefni sín í formannstíð sinni svarar Sigurbjörn því til að „stóra málið“ hafi snúist um gagnagrunn á heilbrigðissviði. „Þetta mál tók alla krafta mína fyrstu tvö árin,“ rifjar Sigurbjörn upp. „Mér var falið að lægja öldurnar í læknasamfélaginu og að því verkefni unnu fleiri. Það leiddi síðan til niðurstöðu milli Læknafélagsins og Íslenskrar erfðagreiningar.“

Í ágúst 2001 urðu aðilar sammála um að bjóða þann möguleika að taka út úr grunninum upplýsingar um einstaklinga óskuðu þeir þess. „Það var framfaraspor í mannréttindaátt að okkar mati,“ segir Sigurbjörn.

Einnig náðist samkomulag um að hlíta yfirlýsingu World Medical Association um gagnagrunna er hún lægi fyrir. Var hún afgreidd haustið 2002. „Það sem síðan gerðist var að það féll hæstaréttardómur um þessi lög [um gagnagrunninn] sem sagði að tiltekin atriði í þeim væru brot á stjórnarskránni. Það var boðuð breyting af hálfu stjórnvalda sem enn hefur ekki litið dagsins ljós. Þá virðist viðskiptalegur áhugi á að hrinda hugmyndinni í framkvæmd ekki vera fyrir hendi lengur. Þannig að í augnablikinu virðist þetta dautt mál.“

Sigurbjörn starfar sem heimilislæknir á heilsugæslunni í Mjódd. „Samkvæmt eigin skilgreiningu er ég enn ungur og er að fara í ný verkefni,“ segir Sigurbjörn hlæjandi. „Ég ætla að lækna og elska konuna mína,“ segir hann aðspurður um framtíðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert