Kínversk menningarhátíð í Kópavogi var sett í dag, laugardaginn 29. september, í Listasafni Kópavogs – Gerðarsafni. Bæjarstjóri Kópavogs, Gunnar I. Birgisson, setti hátíðina, og Lei Yunxia, sendifulltrúi í Kínverska sendiráðinu og staðgengill sendiherra Kína, flutti ávarp. Einnig flutti ávarp Miao Wei, fulltrúi Wuhan-borgar. Þá opnaði forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, tvær sýningar í Gerðarsafni.
Á efri hæð Gerðarsafns er sýningin Kínverskur menningararfur í Wuhan, þar sem gefur að líta málverk, listmuni og aðra gripi frá borgarsafni Wuhan í Kína. Á neðri hæð safnsins var ennfremur opnuð sýningin Austræn heimspeki og íslensk norðurljós þar sem sýndar eru abstrakt vatnslitamyndir frá Íslandi eftir Yu Xi.
Á morgun, sunnudaginn 30. september, kl. 14 verður opnuð ljósmyndasýning í Vetrargarðinum í Smáralind. Á sýningunni eru ljósmyndir úr borgarlífinu í Wuhan, sem eru gjöf til Kópavogsbæjar frá Wuhan-borg.
Fjölbreytt dagskrá verður undir þaki Safnahúss Kópavogs alla hátíðardagana, þar sem sýndar verða kvikmyndir og fræðslumyndir, bókmenntir og listmunir. Þar verður ennfremur fyrirlestraröð og námskeið í flugdrekagerð.
Fyrsta kvikmyndin, Rauði lampinn, verður sýnd í Kórnum, fundarsal Safnahússins, á sunnudag kl. 14. Síðan rekur hver viðburðurinn annan allt fram til sunnudagsins 7. október. Má þar nefna tónleika Þjóðlagahljómsveitar Söngleikja- og dansstofnunar Wuhan í Salnum 3. og 5. október, loftfimleikasýningar í íþróttamiðstöðinni Versölum 4., 6. og 7. október, málþing um kínverska menningu í Salnum og fjölskylduhátíð í Vetrargarðinum í Smáralind.
Að hátíðinni stendur Kópavogsbær í samvinnu við lista- og menningarstofnanir í Kópavogi, sendiráð Kína á Íslandi, Kínversk-Íslenska menningarfélagið og fleiri samstarfsaðila.