Fulltrúar vísindasamfélags og atvinnulífs í þremur löndum innsigluðu í dag samkomulag um umfangsmikið vísindaverkefni sem miðar að bindingu koltvísýrings sem steintegundar í iðrum jarðar. Verkefnið hefur þegar vakið athygli víða um heim vegna hugsanlegra áhrifa þess á glímuna við gróðurhúsaáhrifin. Að verkefninu standa Orkuveita Reykjavíkur, Háskóli Íslands, Columbia háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráð Frakklands. Að viðstöddum forseta Íslands og umhverfisráðherra voru samningar um vísindahlið verkefnisins og fjárhag þess undirritaðir í Hellisheiðarvirkjun, sem er vettvangur þessarar merku tilraunar til bindingar CO2 sem kalsíts í basaltjarðlögum.
Þau Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, og dr. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, skrifuðu undir samning um hinn fjárhagslega þátt verkefnisins. Í honum felst m.a. að Orkuveita Reykjavíkur leggur verkefninu til aðstöðu og búnað við jarðvarmavirkjun fyrirtækisins á Hellisheiði. Fagleg stjórn verður m.a. í höndum Háskóla Íslands.
Samninginn um vísindalega þáttinn undirrituðu dr. Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, dr. Einar Gunnlaugsson, yfirmaður rannsókna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Juerg Matter frá Columbia háskóla og Eric Oelkers frá hinni frönsku Centre National de la Recherche Scientifique.
Rannsóknin er undir faglegri stjórn dr. Sigurðar Reynis. Hann hefur þegar ráðið nokkurn hóp doktorsnema að verkefninu. Þannig mun verkefnið geta af sér mannskap sem hefur þekkingu til að bera til að nýta niðurstöður rannsóknarinnar til framtíðar. Verkefnisstjóri er Hólmfríður Sigurðardóttir, líffræðingur og MBA. Hennar aðsetur er í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1.
Skýringarmyndband um bindingu CO2 í basalti er að finna á Fræðsluvef Orkuveitu Reykjavíkur á slóðinni http://fraedsla.or.is/umhverfid/?v=3hreinnattura/3kolefnisbinding.