Finnski leikstjórinn Aki Kaurismäki tók í dag á Bessastöðum við verðlaunum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn og var það forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sem afhenti verðlaunin. Í fréttatilkynningu frá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð segir að það sé hátíðinni heiður að veita Kaurismäki verðlaunin þar sem hann sé einn besti og þekktasti kvikmyndaleikstjóri Norðurlanda.
Kaurismäki er fæddur árið 1957 og hóf að gera kvikmyndir snemma á níunda áratugnum. Hann vakti fyrst verulega athygli árið 1989 fyrir vegamyndini Leningrad Cowboys Go America þar sem súrrealísku ferðalagi rússneskrar hljómsveitar um Bandaríkin er fylgt eftir. Kaurismäki hefur sjálfur kallað myndina "verstu mynd í sögu kvikmyndalistarinnar sem er ekki með Sylvester Stallone."
Kaurismäki hefur gert fimmtán myndir í fullri lengd en auk myndarinnar um Leningrad Cowboys er hann líklegast þekktastur fyrir Finnlands-þríleikinn sem samanstendur af Ský á reiki (1996), Maður án fortíðar (2002) og Ljós í húminu (2006).