Einn fótbrotnaði, annar kjálkabrotnaði og þrír eru töluvert sárir eftir heiftarleg hópslagsmál sem brutust út á veitingastaðnum Gamla Bauk á Húsavík í fyrrinótt. Lögreglan á Húsavík telur að um tugur manna hafi slegist en auk þess reyndu margir að ganga á milli.
Upptök átakanna eru í rannsókn en að sögn lögreglu áttust annars vegar við hópur erlendra verkamanna og Íslendingar hins vegar. Höggin voru þung og var jafnvel sparkað í liggjandi menn, að því er fram hefur komið við rannsóknina. Þegar lögregla kom á vettvang voru átökin að mestu um garð gengin. Einn maður gisti fangageymslu.
Maðurinn sem fótbrotnaði var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.