„Alls ekki boðleg þjónusta"

Landspítali.
Landspítali.
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Í ágúst biðu 122 einstaklingar, sem lokið höfðu meðferð, á Landspítala eftir langtímavistun. Að auki hafa 22 sjúklingar á lyflækningasviði og níu á skurðlækningasviði lokið meðferð og bíða framhaldsúrræðis. Hefur þessum sjúklingum fjölgað umtalsvert í septembermánuði. Eru dæmi um að fólk hafi beðið í 8–10 mánuði eftir útskrift. Þessir einstaklingar bíða iðulega á bráðadeildum þar sem ónæði er mikið og ekki hægt að veita þeim þá þjónustu sem þeir þarfnast.

Í fyrra náðist að útskrifa fleiri úr þessum hópi, t.d. biðu 104 í janúar sl., en nú hefur framboð á hjúkrunarrými minnkað og ekki fyrirsjáanlegt að það aukist í bráð.

"Dregið hefur úr framboði á hjúkrunarrýmum síðustu mánuði þar sem verið er að breyta mörgum hjúkrunarheimilum, fækka tvíbýlum og fjölga einbýlum," segir Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjúkrunar LSH. "Það er nánast bein lína upp," segir hún um fjölgunina. Langflesta þeirra sem bíða, líklega tæplega 90 talsins, vantar pláss á hjúkrunarheimili en aðrir bíða eftir búsetuúrræði í geðheilbrigðisþjónustunni.

"Það eru mikil vonbrigði að aftur sé að fjölga í þessum hópi á sjúkrahúsinu," segir Guðrún Björg. "Við vorum búin að ná ákveðinni festu og farin að geta sinnt betur bráðasjúklingunum, en þetta kemur fyrst og fremst niður á þeim, því þessu vandamáli fylgja gangalagnir."

"Það er alls ekki boðleg þjónusta við fólk að þurfa að bíða á bráðasjúkrahúsi mánuðum saman, geta ekki haft sitt einkalíf, sína persónulegu muni hjá sér, fá ekkert næði og búa við stöðugt áreiti," segir Guðrún Björg. Hún segir ekki fyrirsjáanlegt að ástandið batni í bráð.

Sjá nánar í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert