Grimmur hundur af Schäfertegund gekk laus á Akranesi í liðinni viku og réðist á fólk og veitti því áverka. Fram kemur á fréttavef Skessuhorns, að hundurinn hafi meðal annars bitið konu í handlegg svo sauma þurfti sárið. Daginn eftir hafði hann eldri konu undir á bílastæði utan við Einarsbúð og er hún marin á eftir. Þá sé vitað að hundurinn beit þriðju konuna en hún hefur ekki lagt fram kæru.
Skessuhorn segir að hundurinn sé enn á lífi en bæjaryfirvöld og fulltrúar lögreglu séu einhuga um að hundinum beri að koma úr umferð hið fyrsta. Þá telji þeir að skerpa þurfi á reglum um hundahald á Akranesi í kjölfar þessa máls.
Magnús Sigurðsson, dýraeftirlitsmaður á Akranesi sagðist í samtali við Skessuhorn kannast við málið. Hann hefði hinsvegar ekki treyst sér til að aðhafast þar sem eigandi hundsins hafi haft í alvarlegum hótunum við sig og málið væri því í höndum lögreglu.