Leigubílar skipta út gula litnum fyrir bleikan

Nýju leigubílaskiltin munu loga í tvo mánuði á ári næstu …
Nýju leigubílaskiltin munu loga í tvo mánuði á ári næstu fimm árin. mbl.is

Leigubílastöðin Hreyfill ekur nú undir bleikum merkjum til styrktar Krabbameinsfélagsins og til að vekja athygli á þeim vágesti sem brjóstakrabbamein er. Liturinn er einkennislitur árvekniátaks um brjóstakrabbamein og jafnframt má sjá bleika slaufu í stað bókstafsins X í orðinu TAXI á ljóskerum bílanna.

Það er að sögn Vignis Þrastar Hjálmarssonar deildarstjóra hjá Hreyfli einsdæmi að leigubílar skipti svona um lit á lögboðnum gulum ljósaskiltum sínum en það er gert með sérstöku leyfi frá samgönguráðuneytinu.

„Það verður árviss viðburður næstu fimm árin hjá okkur að við skiptum litum," sagði Vignir Þröstur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, en alls munu um 350 leigubílar stöðvarinnar setja upp bleiku skiltin.

Bleiku ljósakúplarnir eru í eigu Krabbameinsfélagsins og munu bílstjórar Hreyfils sömuleiðis selja bleiku slaufuna í bílum sínum fyrir Krabbameinsfélagið. Vignir þröstur sagðist vona að þetta veki athygli, hvetji aðra til styrkja Krabbameinsfélagið og verði til að hvetja konur til að fara í skoðun.

Aðspurður sagði hann að flestallir bílstjórarnir væru ánægðir með átakið en þó hefði heyrst í einstaka karlrembum sem vilji ekki keyra með bleikt skilti en Vignir Þröstur sagði að ekki væri hlustað á slíkt þegar svona góður málstaður væri annars vegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert