Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, boðaði breytingar á skipulagi þingsins á þingsetningarfundir í dag og sagði m.a. að næturfundir ættu ekki að þekkjast á Alþingi. Þá sagði Sturla að stefnt væri að lengri starfstíma þingsins, fleiri nefnda- og kjördæmadögum.
Þá sagði Sturla nauðsynlegt að draga úr löngum ræðum á þinginu en jafnframt ættu þingmenn að geta efnt til pólitískra umræðna um aðkallandi mál með litlum fyrirvara. Bæta mætti núverandi fyrirkomulag á slíkum umræðum. Hægt væri að hafa þær í upphafi þingfunda og þar geti þingmenn átt orðastað við fleiri en ráðherra, svosem formenn þingnefnda.
Sturla sagði, að nú á tímum væru gerðar miklar kröfur til þingmanna og ráðherra um þátttöku í stjórnmálastarfi utan vettvangs þingsins. Þá hefði breytt kjördæmaskipan haft í för með sér breytingar á störfum þingmanna og kröfur hefðu aukist um að þingmenn sinni kjördæmi sínu og kjósendum. Einnig væri alþjóðlegt samstarf þingsins og þingmanna stöðugt mikilvægari þáttur í starfi þeirra.
Sturla sagðist hafa rætt hugsanlegar breytingar á starfsháttum þingsins við formenn þingflokka. Hann nefndi, að styrkja þyrfti starf nefnda þingsins og auka eftirlitshlutverk þeirra og sagði að til greina kæmi að ráða sérstaka starfsmenn, sem ynnu fyrir minnihluta þingnefndar. Þá kæmi einnig til greina, að opna ákveðna nefndarfundi fyrir fjölmiðlum.
Sturla sagði mikilvægt fyrir stjórnarandstöðu sem og stjórnarþingmenn, að Alþingi ávinni sér traust. Þáttur í því sé að lagasetning sé vel undirbúin og þingmenn komi til umræðna vel undirbúnir.