Ólafur Ragnar: Engin efnisrök fyrir því að víkja íslenskunni til hliðar

Ólafur Ragnar Grímsson kemur til þingsetningar Alþingis í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson kemur til þingsetningar Alþingis í dag. mbl.is/Júlíus

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði þegar hann setti Alþingi í dag, engin efnisrök eru fyrir því að víkja eigi íslenskunni til hliðar ef háskólar og fyrirtæki eigi að ná í fremstu röð og hæpið að halda því fram að íslenskan geti ekki áfram verið jafnoki heimsmálanna í þekkingarsköpun og atvinnulífi. Þvert á móti beri að efla íslenskukennslu í skólum landsins og auka jafnframt leikni námsfólks í erlendum málum og hjálpa þeim sem hingað koma frá öðrum löndum að læra íslenskuna.

„Þótt hnattvæðingin skapi okkur fjölda nýrra tækifæra og gagnlegt sé að auðvelda aðgang erlendra manna að samvinnu við Íslendinga skulum við ekki gleyma því að sérstaðan gefur okkur gildi; ekki það að falla inn í fjöldann mikla, verða eins og allir hinir," sagði Ólafur Ragnar.

Hann sagði, að sveitirnar og sjávarþorpin hefðu veitt Íslendingum veganestið sem best hefði dugað. Framtíð þessara byggða vítt og breitt um landið allt yrði því aldrei hægt að meta á arðsemiskvarðann einan, né árangurinn aðeins mældur í ársreikningum. „Hér er meira en fjárhagur í húfi – öllu heldur sjálfar rætur þjóðarinnar, uppruni okkar og eðlisþættir. Þegar spurt er: Hvað hefur dugað Íslendingum einna best og gerir enn á okkar tímum? Þá er svarið næsta einfalt: Arfurinn sem sjómenn og bændur, landsbyggðin gaf okkur í heimanmund," sagði forsetinn.

Ólafur Ragnar sagði, að sjálfsmynd og staðfesta íslenskrar þjóðar hvíli einkum á þremur stoðum:

  • Arfleifðinni sem íbúar dreifðra byggða hafa skapað.
  • Samkenndinni sem hliðstæð lífskjör festu í sessi.
  • Tungumáli sem gaf menningunni ávallt nýjan sköpunarkraft.

Ólafur Ragnar sagði, að þessi þrenning arfleifðar, samkenndar og tungu ætti nú í vök að verjast og því væri áríðandi að hugað sé vel að stefnumótun og ákvörðunum. Samkenndin ætti undir högg að sækja því sífellt breikkaði bilið í lífskjörunum.

„Hinn mikli auður sem umsvifin á erlendum vettvangi hafa skapað má ekki verða til að böndin trosni sem bundið hafa þjóðina saman. Hitt væri miklu frekar óskandi, að vaxandi auðlegð verði til að útrýma fátæktinni meðal okkar og styrkja verkefni sem gefa sem flestum ný tækifæri – og einnig að hún nýtist okkur til að veita öflugt liðsinni öðrum þjóðum sem eru í vanda, þjóðum sem nú takast á við áskoranir sem við þekkjum margar frá fyrri tíð, erfiðleika sem Íslendingar glímdu við," sagði forseti Íslands.

Hann sagði að stjórnendur hinnar miklu siglingar atvinnulífsins yrðu ávallt að hafa hugfast, að það var þjóðin öll sem gerði þeim kleift að ýta úr vör. „Keppnisandinn, þótt gagnlegur sé, má aldrei slíta véböndin sem tengt hafa fólkið í landinu hvert við annað, gert okkur að einni þjóð. Ef ólík lífskjör spilla friði á heimavelli er hætta á að vindurinn fari fyrr en varir úr seglum íslenskra fleyja á mörkuðum heimsins," sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar minntist Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, sem lést í sumar. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, minntist Einars Odds einnig sem og Jónasar Jónssonar, fyrrum búnaðarmálastjóra og alþingismanns.

Þingsetningarræða Ólafs Ragnars

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert