Tveir grunnskólar með færri skóladaga en 170

Íslensk grunnskólabörn.
Íslensk grunnskólabörn. mbl.is/Ásdís

Í einungis tveimur skólum eru skóladagar færri en 170 og eru þeir báðir með undanþágu vegna fámennis eða skipulags skólaaksturs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að starfsdagar kennara voru að meðaltali 13 talsins á síðasta skólaári. Vinnudagar grunnskólakennara voru að meðaltali 179 talsins með nemendum og 13 starfsdagar, eða 192 vinnudagar alls.

Hagstofa Íslands safnar upplýsingum frá grunnskólum að vori. Í einungis tveimur skólum eru skóladagar færri en 170 og eru þeir báðir með undanþágu vegna fámennis eða skipulags skólaaksturs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagstofu Íslands

Í lögum um grunnskóla segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Starfstími nemenda er talinn í skóladögum, sem skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga. Með öðrum dögum er átt við þá daga þar sem skólastarf samkvæmt stundaskrá undir stjórn kennara fer ekki fram, t.d. þegar farið er í skólaferðalög og vettvangsferðir. Lágmarksfjöldi kennslustunda í 1.-4. bekk skal vera 30 stundir, á miðstigi, þ.e. í 5-7. bekk, skal að lágmarki kenna 35 stundir og í 8-10. bekk að lágmarki 37 kennslustundir á viku samkvæmt grunnskólalögum.

Í gögnum frá vori 2007 er ekki marktækur munur á fjölda skóladaga eftir bekkjum. Meðalfjöldi skóladaga allra bekkja var 179. Kennsludagar voru frá 164 til 172 eftir bekkjum. Meðaltal prófdaga var einnig breytilegt eftir bekkjum. Kennsludagar voru fleiri hjá yngri bekkjum grunnskólans, en að sama skapi voru prófdagar færri. Meðal elstu bekkja grunnskólans voru prófdagar og aðrir dagar fleiri og kennsludagar færri. Fæstir voru prófdagar hjá nemendum í 1. bekk; 0,4 dagar. Flestir voru prófdagarnir hjá 10. bekkingum; 7,4 að meðaltali.

Flestir skólar uppfylla kröfur grunnskólalaga um lágmarksfjölda kennslustunda nemenda. Menntamálaráðuneytið getur veitt undanþágu frá lögunum vegna sérstakra aðstæðna. Mörg sveitarfélög hafa lagt metnað sinn í að fjölga vikulegum kennslustundum hjá nemendum grunnskólans. Margir nemendur fá því fleiri kennslustundir á viku en kveðið er á um í lögum um grunnskóla.

Starfsdagar kennara að meðaltali 13 á síðasta skólaári

Í vorskýrslu grunnskóla er einnig spurt um vinnudaga kennara án barna, svokallaða starfsdaga. Að meðaltali voru starfsdagar kennara 13 á síðastliðnu skólaári. Fjöldi starfsdaga var misjafn eftir skólum og var heildarfjöldi starfsdaga frá 3 til 21. Að meðaltali voru 5 starfsdagar teknir á starfstíma skóla og 8 dagar utan starfstíma skóla, svokallaðir skipulagsdagar að hausti og vori. Vinnudagar grunnskólakennara voru að meðaltali 179 talsins með nemendum og 13 starfsdagar, eða 192 vinnudagar alls.

Fleiri nemendur njóta stuðnings

Skólaárið 2006-2007 nutu 10.802 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðnings, sem er 24,6% allra nemenda. Er það fjölgun um 835 nemendur frá fyrra skólaári, sem er 8,4% aukning. Hlutfallslega flestir nemendur 4. bekkjar (9 ára nemendur) nutu stuðnings.

Vefur Hagstofu Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert