Um 40 íbúar og landeigendur í Flóahreppi afhentu á föstudaginn sveitarstjórn Flóahrepps áskorun um að sveitarstjórn fari fram á það við Skipulagsstofnun að matsskýrsla fyrir virkjanir í Þjórsá verði endurskoðuð.
Í áskoruninni er bent á að ný gögn um jarðfræði svæðisins hafi breytt forsendum verulega frá því að úrskurðir Skipulagsstofnunar lágu fyrir í ágúst 2003 enda hafi jarðfræði svæðisins ekki verið nógu vel þekkt á þeim tíma. Því sé mikilvægt að sveitarstjórn fari fram á nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Ennfremur er bent á að fornminjar, sem fundist hafi á jörðinni Þjótanda, gætu verið með merkilegustu minjum Íslendinga frá landnámsöld. Verði minjarnar ekki rannsakaðar nánar og varðveittar gætu mikilvæg menningarverðmæti farið forgörðum.