Eftirlitsátak vegna erlendra starfsmanna hafið

Vinnumálastofnun hleypir í dag af stokkunum sérstöku eftirlitsátaki með fyrirtækjum vegna erlendra starfsmanna undir heitinu Allt í ljós í samvinnu við Félagsmálaráðuneytið og ASÍ. Átakið mun standa yfir um allt land en með sérstaka áherslu á fyrirtæki í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði á blaðamannafundi þar sem átakið var kynnt, að fyrir þremur vikum hefði verið boðað að Vinnumálastofnun í samráði við verkalýðshreyfinguna myndi fara í herferð gegn fyrirtækjum sem væru með erlent vinnuafl sem ekki væri skráð með löglegum hætti í landinu og ástæða væri til þess að ætla að brytu hér lög og reglur. „Það er ljóst frá því við fórum af stað að þessi vinna og þetta átak hefur þegar skilað verulegum árangri," sagði Jóhanna.

Skráningar vegna útlendinga í vinnu hafi verið um 400-500 mánuði á tímabilinu janúar-ágúst. Að meðaltali hafi verið tilkynnt um á bilinu 100-200 manns á mánuði vegna vinnuskipta. „En núna í september sjáum við verulega breytingu. Í stað 400-500 sem skráðu sig mánaðarlega eru um 1200 skráningar komnar frá þvi að átakið var boðað," sagði Jóhanna. Skráningar vegna vinnuskipta hafi í september verið á bilinu 400-500.

Vinnumálastofnun sendi í gær bréf til um 1600 fyrirtækja og lögaðila á landinu öllu þar sem vakin er athygli á eftirlitsátakinu og vísað til skráningarskyldu þeirra samkvæmt lögum.

Markmið átaksins eru að ganga úr skugga um að starfsemi erlendra fyrirtækja, sem hér starfa. sé í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga sem og að innlendir atvinnurekendur tilkynni ráðningar starfsmanna sem eru ríkisborgarar í átta af hinum tíu nýju EES-ríkjum. Þá á að tryggja, að vinnuveitendur virði réttindi erlends launafólks og koma þeim boðum á framfæri, að framkvæmd og eftirlit laga sé skilvirk og að ekki sé annað liðið en að fyrirtæki, innlend sem erlend virði íslensk lög.

Eftirlit Vinnumálastofnunar vegna skráninga tekur til eftirfarandi:

  1. Eftirlit með tilkynningum vinnuveitenda til Vinnumálastofnun um ráðningar starfsmanna sem eru ríkisborgarar í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóvakínu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi.
  2. Eftirlit með að þær starfsmannaleigur er starfa hér á landi hafi tilkynnnt um starfsemi sína til Vinnumálastofnunar.
  3. Eftirlit með að erlend fyrirtæki sem hafa staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðsins og senda starfsmenn tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu, hafi veitt Vinnumálastofnun upplýsingar um starfsemi sína.
Átakið mun standa yfir til 2. desember. Starfsfólk þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar mun heimsækja fyrirtæki og óska eftir nafnalistum yfir útlendinga sem þar starfa. Komi eitthvað athugavert í ljós eða skráningu er ábótavant, er fyrirtækjunum með staðfestum hætti veittur tíu daga frestur til að lagfæra skráningu og afhenda ráðningarsamninga og eftir atvikum þjónustusamninga aðila.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði að fjölgað yrði verulega í eftirliti með skráningu erlendra starfsmanna hjá Vinnumálastofnun. Hingað til hefðu tveir sinnt þessu starfi en nú yrðu 6 manns í fullu starfi að sinna því, ásamt 4-6 í hlutastarfi. „Átakið sem við köllum allt í ljós mun ná til 1700 aðila sem talið er að séu ekki skráðir rétt inn í landið. Átakið mun taka um 2 mánuði. Þá munum við meta árangurinn og ef ástæða er talin til að halda því áfram munum við að sjálfsögðu gera það."

Jóhanna sagði að átakið myndi ná um allt land en sérstök áhersla yrði á fyrirtæki í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu.

„En við erum líka að þessu til þess að hvetja fyrirtæki til þess að hafa sitt á hreinu," sagði Jóhanna og bætti við að vonast væri eftir snöggum viðbrögðum þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert