„Takk fyrir að láta okkur vita af þessu," sagði Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, þegar blaðamaður hafði samband við hann seint á níunda tímanum í gærkvöldi til að spyrjast fyrir um það hvers vegna þjóðfáninn blakti þá enn við hún á stjórnarráði Íslands. Samkvæmt 3. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 skal eigi draga fána á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi uppi vera lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
Að sögn Bolla urðu mannleg mistök þess valdandi að það gleymdist að taka fánann niður á réttum tíma, en sólarlag var kl. 17.41 í gær. Sagði Bolli að strax hefði verið brugðist við þegar ábendingin barst og fáninn tekinn niður. Setning Alþingis í gær var ástæða þess að íslenski fáninn var dreginn að hún við stjórnarráðið.