Foreldrar leikskólabarna í Grafarvogi hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist, að launakjör starfsmanna leikskóla verði bætt. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að foreldrarnir krefjist þess að borgaryfirvöld og menntayfirvöld landsins taki höndum saman og vinni að lausn vandans til frambúðar.
Í fréttunum var haft eftir foreldrum, að þau leggi áherslu á að á leikskólunum verði að starfa hæft og þjálfað fólk sem hafi getu til að efla og mennta börnin. Foreldrarnir sögðust langþreyttir á manneklu í leikskólunum, ár eftir ár, og segja að ekkert leysi vandann nema störf í leikskólum verði hafin til vegs og virðingar.