Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til breytinga á vatnalögum. Í frumvarpinu er lagt til að gildistöku vatnalaga verði frestað til 1. nóvember á næsta ári, en tilgangurinn með frestuninni er að veita nefnd fulltrúa allra flokka færi á að taka til skoðunar samræmi laganna við önnur lagaákvæði sem varða vatn og vatnsréttindi.
Í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu segir að í umræðum um frumvarpið á síðasta þingi hafi komið upp efnislegur ágreiningur um það. Komist var að samkomulagi sem fól í sér að gildistöku lagana var frestað til 1. nóvember á þessu ári og að skipuð yrði nefnd fulltrúa allra þingflokka auk eins fulltrúa sem tilnefndur skyldi af umhverfisráðherra og formmanns sem skipaður skyldi án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar var að taka til skoðunar samræmi laganna við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, þar á meðal fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga, sem byggjast mun að stofni til á tilskipun Evrópusambandsins.
Í tilkynningu segir að í ljósi þess að nefndin var ekki skipuð þá sé lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. nóvember 2008, svo færi gefist á að láta fara fram þá vinnu sem nefndinni var ætlað að sinna.