Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gagnrýndi harðlega þá ákvörðun stjórnvalda í sumar að skerða þorskkvóta um 60 þúsund tonn. Sagði hann að engin haldbær rök hefðu verið fyrir þessari furðulegu niðurstöðu og þvert á móti væru ýmis rök fyrir því að auka þorskaflann.
Guðjón Arnar sagði, að athugun þingmanna Frjálslynda flokksins á tillögum Hafrannsóknastofnunar allt frá svörtu skýrslunni svonefndu árið 1973, hafi leitt í ljós, að á nokkurra ára fresti komi þaðan boðskapur um hrun í þorskstofnum. Þess á milli sé lagður til aukinn þorskafli. Nú séu Hafrómenn í enn einu svartsýniskastinu án þess að hrun sé yfirvofandi.
Þá sagði Guðjón, að ákvörðun sjávarútvegsráðherra vegi að byggð í landinu og muni leiða til þess að veiðikvótinn þjappist á enn fárra hendur.
Guðjón Arnar fór yfir nokkur mál, sem Frjálslyndi flokkurinn mun leggja fram á yfirstandandi þingi, þar á meðal að sérstakur persónuafsláttur verði tekinn upp sem tryggi, að þeir sem hafa minni tekjur en 1,8 milljónir króna í árslaun greiði ekki tekjuskatt eða útsvar.