Á sérstökum fundi, sem haldinn verður í dag í Genf vegna ástands mannréttindamála í Búrma, mun Kristinn F. Árnason, fastafulltrúi Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf, flytja yfirlýsingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda þar sem fordæmd eru ofbeldisverk sem viðgengist hafa við að bæla niður friðsamleg mótmæli í Búrma.
Í yfirlýsingunni eru stjórnvöld í Mjanmar/Burma hvött til að tryggja virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og að aflétta öllum hömlum á friðsamlegri pólitískri starfsemi. Þess er krafist að stjórnvöld í Búrma leysi úr haldi án tafar þá einstaklinga sem teknir hafa verið til fanga, þ.m.t. Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, að rannsökuð verði morð og ofbeldisverk sem hafa viðgengist og að þeir verði dregnir til ábyrgðar sem gerst hafa sekir um mannréttindabrot.
Evrópusambandið hefur lagt fram ályktanatillögu sem Ísland styður og kemur til afgreiðslu fundarins.