Mannekla og breytingar

Hrafnista í Reykjavík.
Hrafnista í Reykjavík. Morgunblaðið/ ÞÖK
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Tvennt hefur orðið til þess að færri eru nú teknir inn á hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu en verið hefur. Fyrst ber að nefna að verið er að breyta heimilum, tvíbýlum er fækkað og einbýlum fjölgað. Af þessum sökum mun t.d. hjúkrunarrýmum á Hrafnistu í Reykjavík fækka um 55 á næstu 5-7 árum. Í annan stað fæst ekki fólk til starfa á heimilunum og því dæmi um að hjúkrunarrými standi auð af þeim sökum. Á Hrafnistu í Hafnarfirði standa t.d. fjögur pláss auð vegna manneklu. Nánast engir nýir íbúar eru teknir inn á Hrafnistuheimilin af ofangreindum orsökum. Þar vantar nú starfsmenn í 30 stöðugildi við aðhlynningu og hjúkrun.

Þá standa breytingar m.a. fyrir dyrum á Grund og því fyrirsjáanlegt að þar komi hjúkrunarrýmum til með að fækka verulega á næstu misserum. Grund hefur hingað til tekið við flestum sjúklingum sem lokið hafa meðferð á Landspítalanum eða um 40-50 manns á ári. Á annað hundrað manns eru nú á biðlista eftir rými á Grund. Þá tekur Sóltún einnig við fjölda sjúklinga af LSH.

Enginn til að hjúkra fólkinu

Í Morgunblaðinu í gær var sagt frá því að 122 manns, sem lokið höfðu meðferð á LSH í ágúst, biðu þar eftir langtímavistun við óviðunandi aðstæður. Hefur fjölgað í þessum hópi undanfarnar vikur. Mikill meirihluti þeirra bíður eftir plássi á hjúkrunarheimilum. Á Landakoti standa átta sjúkrarúm sem áður segir auð vegna manneklu. Hefur það m.a. þau áhrif að aldraðir sjúklingar komast ekki í endurhæfingu á Landakoti og þurfa að liggja á bráðadeildum spítalans.

Ekki er fyrirsjáanlegt að vandinn leysist fyrr en með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis í Mörkinni sem ráðgert er að opna eftir tæp tvö ár. Bent hefur verið á að þangað til mætti grynnka á biðlistum með því að auka heimahjúkrun til muna, en eins og staðan er í dag í atvinnulífinu er ólíklegt að fólk fáist þar til starfa frekar en á öldrunarstofnunum. "Það er líkt og það hafi myndast algjört stopp í úthlutun og ákvarðanatöku um hjúkrunarheimili," segir Sveinn H. Skúlason, forstjóri Hrafnistu.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert