Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar hefði mikinn metnað og afl til að hrinda nauðsynlegum umbótum í framkvæmd.
„Við munum hvergi slá af við að styrkja almannaþjónustuna, fjölga stoðum íslensks atvinnulífs og axla okkar sanngjörnu byrðar í alþjóðlegu samfélagi, svo sem á sviði þróunaraðstoðar og friðargæslu," sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún fjallaði nokkuð um loftslagsmál og sagði ljóst, að í alþjóðlegum viðræðum um nýtt hnattrænt samkomulag, sem taki við eftir gildistíma Kýótó-bókunarinnar árið 2012, verði gerð krafa um að Íslendingar minnki losun sína á gróðurhúsalofttegundum. Það verkefni þurfi nú að vinna, fljótt og örugglega. Gera þurfi ítarlega áætlun um hvernig Ísland geti mætt væntanlegum framtíðarskuldbindingum á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Setja þurfi tölusett og tímasett markmið fyrir hina ýmsu geira samfélagsins þar sem losun gróðurhúsalofttegunda eigi sér stað.
„Það dylst engum að orkulindir Íslendinga hafa vakið áhuga innlendra og alþjóðlegra fjárfesta. Það er því tímabært að við skýrum leikreglurnar til að verja í senn almannahagsmuni en greiða um leið fyrir samkeppni og útrás á orkusviðinu.
Við viljum greiða fyrir alþjóðavæðingu orkugeirans þannig að Íslendingar geti flutt út þekkingu sína og reynslu í beislun jarðhita og vatnsorku til annarra þjóða. Mikilvægt er að einkaaðilar fjárfesti í þeirri þekkingu sem býr í orkugeiranum og nýti hana til útrásar í verkefnum í öðrum löndum. Það er hins vegar jafn mikilvægt að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum og hún missi þær ekki úr höndum sér," sagði Ingibjörg Sólrún meðal annars.