Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld að allt benti til að sú þensla, sem einkennt hafi íslenskt efnahagslíf á síðustu árum, sé á undanhaldi og að framundan sé tímabil aukins stöðugleika og meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Þá væri traust afkoma ríkissjóðs forsenda fyrir frekari skattalækkunum.
„Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir verulegum afgangi á ríkissjóði, ekki aðeins á næsta ári heldur einnig næstu fjögur ár. Þetta er mikil breyting frá fyrri spám sem fólu í sér töluverðan halla á ríkissjóði næstu ár. Ég tel að þessi nýja staða skapi svigrúm til frekari skattalækkana á einstaklinga jafnt sem fyrirtæki á næstu árum jafnhliða því sem ráðist verður í margháttaðar umbætur í velferðarkerfi og innviðum samfélagsins," sagði Geir. Hann nefndi sérstaklega að stefnt væri að lækkun skatta á einstaklinga meðal annars með hækkun persónuafsláttar.
Hann fór yfir væntanleg verkefni ríkisstjórnarinnar og sagði m.a. að menntamálaráðherra muni á þessu þingi leggja fram frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og til lögverndunar á starfsheitum kennara og skólastjórnenda. Sagði Geir, að þetta væri í fyrsta skipti frumvörp um þessi þrjú skólastig væri lögð fram samtímis en með þeim sé mótaður heildstæður grundvöllur fyrir menntun barna og ungmenna frá upphafi skólagöngu til loka framhaldsskóla.
Þá sagði Geir, að á vettvangi samgöngumála væru fjölmörg verkefni framundan, þar á meðal þrjú verkefni þar sem einkaframkvæmd sé talin álitlegur kostur. Þetta væru tvöföldun Suðurlandsvegar, gerð Sundabrautar og göng undir Vaðlaheiði.
Forsætisráðherra sagði, að nú væri ár liðið síðan bandaríska varnarliðið hvarf á brott. Við það hafi ekki einungis orðið breytingar í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar heldur komið upp ný staða varðandi Keflavíkurflugvöll og það landsvæði sem varnarliðið hafði til umráða. Í ljós hafi komið að áhugi fyrirtækja, t.d. á hátæknisviði, sé mikill, m.a. vegna nálægðar við alþjóðaflugvöllinn og ljóst að svæðið, sem áður var frátekið til varnarþarfa bjóði upp á stórfellda vaxtarmöguleika.
Geir sagði, að viðskiptaráðherra hefði ákveðið að hrinda af stað heildarstefnumótun á sviði neytendamála. Fyrsta skref þeirrar vinnu væri víðtæk úttekt á virkni og viðhorfum neytenda á Íslandi og samanburður á stöðu neytendamála hérlendis og erlendis. Á þeim grunni verði unnið að bættri löggjöf svo Ísland standi jafnfætis löndum þar sem neytendavernd sé lengst komin.
Loks sagði Geir, að íslenskur fjármálamarkaður hafi stækkað og eflst verulega á undanförnum árum. Í þjóðhagslegu samhengi skipti hann sífellt meira máli og þannig sé áætlað að hlutdeild fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu hafi numið um 10% í lok síðasta árs. Ekkert bendi til annars en að áframhaldandi aukning verði í umsvifum íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja.