Skipverjar á hrefnuveiðibátnum Halldóri Sigurðssyni ÍS bíða nú veðurs eftir að komast út til áframhaldandi atvinnuveiða á hrefnu. Fram kemur á vef hrefnuveiðimanna, að veðurútlit sé ekki gott í vikunni en farið verði af stað við fyrsta tækifæri.
Sjávarútvegsráðherra framlengdi nýlega veiðitímabil hrefnuveiða til 1. nóvember. Á síðasta ári var gefinn út 30 dýra kvóti fyrir atvinnuveiðar en þegar fiskveiðiárinu lauk 31. ágúst voru 23 dýr eftir óveidd.
Á vef hrefnuveiðimanna segir, að nú vanti kjöt til þess að reykja og þurrka fyrir þorrann. Því liggi mikið á að ná nokkrum dýrum fyrir næstu mánaðamót.