Bjarni verður stjórnarformaður sameinaðs félags

Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest eftir blaðamannafund þar …
Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest eftir blaðamannafund þar sem samruninn var kynntur. mbl.is/Friðrik

Bjarni Ármannsson verður stjórnarformaður sameinaðs félags Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy. Forstjórar eru Guðmundur Þóroddsson og Ásgeir Margeirsson. Heildarhlutafé er rúmir 40 milljarðar króna. Orkuveita Reykjavíkur er stærsti hluthafinn með 35,5% hlut, FL Group á 27% hlut, Atorka Group 20,1% Glitnir 6,2%, Goldman-Sachs og Ólafur Jóhann Ólafsson 2,9% og VGK-Hönnun 2,2%. Aðrir eiga samtals 6,2% hlut.

Félögin tvö eru sameinuð undir nafni Reykjavik Energy Invest. Fram kom á blaðamannafundi þar sem sameiningin var kynnt að til verði leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í fjárfestingum og þróun á sviði jarðvarma. Sameinað fyrirtæki hyggist nýta íslenska þekkingu í framrás sinni víða um heim á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Heildarverðmæti félagsins eftir sameiningu nemur um 65 milljörðum króna.

Stjórn Reykjavik Energy Invest fékk erindi frá Starfsmannafélagi Orkuveitu Reykjavíkur í byrjun september þar sem þess var farið á leit að starfsfólki Orkuveitunnar gæfist kostur á að kaupa hlut í Reykjavik Energy Invest. Í gær var starfsfólki OR gerð grein fyrir tilboði um kaup á hlut í félaginu. Það felur í sér að starfsmenn geta skráð sig fyrir kaupum á 100, 200 eða 300 þúsund króna hlutum að nafnvirði á genginu 1,3.

Meðal þess sem er innan vébanda Reykjavik Energy Invest er 100% eignarhlutur í Jarðborunum, sem áður var í eigu Geysis Green Energy, 48% eignarhlutur í Hitaveitu Suðurnesja, sem er samanlagður hlutur beggja félaganna, 70% eignarhlutur í Enex, sem vinnur að þróun jarðvarmaverkefna víðsvegar um heiminn, 66% eignarhlutur í Enex Kína sem vinnur að þróun hitaveitna í Kína, 20% eignarhlutur í Western GeoPower í Kanada sem vinnur að þróun tveggja jarðvarmavirkjana í Bandaríkjunum. Þessi hlutur var áður í eigu Geysis Green Energy. Loks á félagið 46% hlut í Exorku International, sem vinnur að byggingu jarðvarmaorkuvera sem nýta svo kallaða Kalina-tækni til raforkuvinnslu. Þessi hlutur var áður í eigu Geysis Green Energy.

Fyrirsjáanleg eru verkefni um byggingu og kaup um 700 megawatta raforkuvinnslu sem ná m.a. til Bandaríkjanna, Filippseyja, Kína, Indónesíu, Þýskalands og Eþíópíu. Framtíðarmarkmið félagsins er að framleiða 3-4.000 megavött fyrir lok árs 2009. Þá er gert ráð fyrir að félagið verði skráð á markað árið 2009.

Reykjavik Energy Invest var stofnað í mars 2007 og er í 93% eigu Orkuveitunnar. Geysir Green Energy var stofnað í janúar á þessu ári af FL Group, Glitni og VGH hönnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert