Byggðastofnun verður einn af hluthöfum í óstofnuðu félagi sem vinnur að því að endurreisa rækjuvinnsluna Miðfell á Ísafirði. Jón Guðbjartsson, einn eigenda Miðfells, segir í samtali við Bæjarins besta að næsta skref sé að stofna hlutafélag og vinna í því að koma verksmiðjunni í gang.
„Það tekur auðvitað tíma fyrir okkur og Byggðastofnun að gera okkur klár en eins og málum er háttað nú þá er fátt sem getur komið í veg fyrir að við náum að opna eftir viku til 10 daga.“
Héraðsdómur Vestfjarða samþykkti í sumar beiðni stjórnar Miðfells um að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Jón segir ekki komið á hreint hve margir starfsmenn komi til með að vinna hjá fyrirtækinu en að þeir verði væntanlega í kringum 25 til að byrja með. „Starfsmannafjöldi er ekki kominn á hreint. Við stefnum auðvitað að því að fara langleiðina í að hafa sama starfsmannafjölda og var en ég gæti trúað því að við byrjum með 25 starfsmenn,“ samkvæmt frétt Bæjarins besta.