Valborg Guðlaugsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Engjaborg í Grafarvogi, fagnar stuðningi foreldra leikskólabarna og kröfu þeirra um að launakjör starfsmanna leikskóla verði bætt. Foreldrar barna í leikskólum í Grafarvogi hafa tekið sig saman og standa að undirskriftalista. Á honum er hvatt er til þess að launakjör leikskólakennara verði bætt og að fagfólk starfi með börnum á leikskólunum.
"Ég fagna frumkvæði foreldra og tel nauðsynlegt að þeir myndi þrýstihóp sem kallar eftir lausnum til frambúðar í leikskólamálum borgarinnar," segir Valborg. Nauðsynlegt sé að starf leikskólanna verði hafið til vegs og virðingar og það gerist ekki nema með bættum launakjörum starfsmanna. "Einnig verður að auka virðingu fólks í þjóðfélaginu fyrir því starfi sem fram fer í leikskólanum þannig að ég held að það sé mjög af hinu góða að foreldrar skuli taka sig saman og sýna stuðning við okkur leikskólafólk og það sem við gerum á leikskólunum."
Eva segir að henni og manni hennar takist að bjarga málum fyrir horn.
Fólk í kringum hana leiti ýmissa leiða til þess að útvega gæslu fyrir börnin þegar leikskólinn er lokaður. Í einu tilfelli sem hún þekki hafi verið ekið með börn til Keflavíkur þar sem afi þeirra býr.
Eva segir ljóst að bæta þurfi kjör leikskólakennara. "Það segir sig sjálft að fólk getur ekki lifað af laununum í þessu starfi, þannig að það fer annað, þar sem það fær betri laun," segir hún. Eitthvað sé um að leikskólakennarar hafi flutt sig yfir í einkarekna leikskóla en þar séu launin hærri en á borgarreknu leikskólunum. Hún hafi heyrt á foreldrum að þeim finnist orðið tímabært "að koma fram og tala um þessi mál. Það verður að vekja athygli á þessu til þess að það gerist eitthvað," segir hún.
"Við ítrekum að mjög mikilvægt er að koma á stöðugleika í starfsmannamálum leikskóla borgarinnar. Við gagnrýnum að undanfarin haust hafi þurft að redda málum innan margra leikskóla með því að ráða á síðustu stundu of marga ófaglærða og óþjálfaða til starfa. Við erum að horfast í augu við flótta fjölmargra hæfra leikskólakennara og leikskólaliða úr leikskólunum vegna lakra kjara og aðstæðna.
Við krefjumst því að borgaryfirvöld og menntayfirvöld landsins taki höndum saman og vinni að lausn vandans, ekki til eins vetrar, heldur til frambúðar," segir á undirskriftalistanum.