Leigusamningum í vanskilum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári, segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Töluverður titringur er á leigumarkaði í dag og er eftirspurnin langt umfram framboð. Tröllasögur af háu leiguverði hafa einnig átt sinn þátt í að keyra upp leiguverð á markaðnum.
„Aukningin er umtalsverð og skrýtin í ljósi þeirrar umræðu að vanskil í þjóðfélaginu hafi ekki aukist. Ég sé enga ástæðu fyrir þessu nema þá að það er væntanlega eitthvað harðara í ári," segir Sigurður Helgi. Hann segir að ýkjusögur um himinhátt leiguverð hafi átt sinn þátt í hækkuninni.
„Um leið og það berast út sögur um að þriggja herbergja íbúð sé leigð út á 150 þúsund krónur á mánuði, fara þeir sem leigja á lægra verði að hugsa um hvort þeir séu að missa af lestinni."
Sigurður Helgi segir brýnt að koma á fót leigjendasamtökum sem gæta hagsmuna leigjenda, líkt og tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar. „Markaðurinn verður ekki eðlilegur fyrr en þau eru komin til sögunnar. Aðilar eins og Félagsbústaðir og Neytendasamtökin eru sama sinnis."
Nánar í Blaðinu