Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað sjö Litháa í viku gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um að þeir hafi stundað skipulagða þjófnaði úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir voru handteknir í gærkvöldi og nótt. Sjö aðrir landar þeirra voru handteknir í morgun en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þeim. Allir þekkjast mennirnir innbyrðis.
Nokkrir þeirra hafa komið við sögu lögreglu áður, og hefur einn þeirra fengið á sig dóm hér á landi vegna auðgunarbrota og þá hafa einhverjir þeirra fengið á sig dóma vegna svipaðra mála erlendis. Einn mannanna var rétt ófarinn til útlanda með talsvert af þýfinu, og er talið að átt hafi að selja það erlendis.
Í gærkvöldi lagði lögreglan hald á umtalsvert magn af þýfi úr snyrtivöruverslunum, tölvubúðum, fataverslunum og stórmörkuðum. Einn þeirra handteknu var á leið úr landi með hluta þýfisins, og er talið að þar hafi átt að selja varninginn.
Ekki fæst uppgefið hjá lögreglu hvort hún hafi lagt hald á meira þýfi í morgun.
Fulltrúar aðildarfyrirtækja Samtaka verslunar og þjónustu hafa boðað til blaðamannafundar á morgun ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og er fundarefnið sívaxandi búðaþjófnaður útlendinga, sem komi gagngert til landsins í þessum erindagjörðum.