Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði í utandagskrárumræðu á Alþingi um horfur í efnahagsmálum og hagstjórn, að staða þjóðarbúsins hafi verið að stórversna og skýrslur alþjóðlegra stofnana hafi allar hnigið í þá átt á undanförnum misserum. Sagði Steingrímur að hagstjórn væri í molum og áætlanagerð öll komin út í hafsauga. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að þvert á móti væri staða íslenska þjóðarbúsins afar góð hvað sem miklum viðskiptahalla liði.
Steingrímur sagði m.a. að síðustu 12 ár hefði aðeins einu sinni náðst jákvæður viðskiptajöfnuður hér á landi. Það hefði verið árið 2002 þegar afgangur var 1,5% af landsframleiðslu. Undanfarin ár hefði viðskiptahallinn hins vegar alltaf verið langt umfram áætlanir og á síðasta ári hefði vantað meira en fjórðung af landsframleiðslunni uppá að Íslendingar hefðu átt fyrir samskiptum sínum við útlönd. Hallinn í ár stefndi í 15,2% af landsframleiðslu og 8,8% á næsta ári en ekki rúmlega 2% eins og nýlegar spár hefðu verið um.
„Skilja menn hvað þetta þýðir?" spurði Steingrímur og svaraði að þessi geigvænlega skuldasöfnun væri ávísun á verðbólgu og svimandi háa vexti.
Hann sagði að þrátt fyrir þetta ástand væri útlit fyrir mikil opinber útgjöld og framkvæmdir á næstunni. Í fyrsta lagi væru kosningavíxlar ríkisstjórnarinnar að tikka og einnig hefðu verið ákveðnar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Það kynni að rúmast vel innan hagkerfisins ef ekki kæmi annað til, en framundan væri gríðarlegt framkvæmdamagn, bæði á vegum einkaaðila og opinberra aðila. Ofan á þetta virtist ríkisstjórnin ætla að bæta 3-4 risaálverum. „Hvernig á þetta að rúmast innan hagkerfisins?" spurði Steingrímur.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að Steingrími hefði orðið tíðrætt um viðskiptahallann, sem vissulega væri vandamál. Steingrímur hefði þó látið hjá líða, að útskýra hvernig þessi halli væri tilkominn og hvaða greinarmun yrði að gera á opinberum fjármálum og fjármálum einkafyrirtækja.
Geir sagði, að frelsi ríkti á fjármagnsmarkaði og fjármálastofnanir og fyrirtæki hefðu leyfi til að flytja inn fjármagn vegna framkvæmda og atvinnustarfsemi.
Staða ríkissjóðs væri hins vegar slík, að hann ætti nú eignir í stað skulda og hefði skilað um 300 milljóna rekstarafgangi á árunum 2005-2008. Slík staða væri nær einsdæmi í Evrópu og þessi mikli rekstarafgangur hefði verið notaður til að byggja upp eiginfjárstöðu Seðlabankans auk þeirra eigna, sem ríkissjóður á þar inni. Þetta hefði aukið aðhald hér á landi og stutt við aðhald peningastefnu Seðlabankans. „Þetta vita allir sem hafa kynnt sér staðreyndir," sagði Geir.
Hann sagði að mikill hagvöxtur hefði verið hér á undanförnum árum og umsvif í hagkerfinu. Það væri hins vegar afar athyglisvert hvernig Íslendingum hefði tekist að komast áfallalaust í gegnum þessar miklu hræringar án teljandi skakkafalla. Aðrar þjóðir berðust við böl atvinnuleysisins en hér á landi væri atvinnuleysi er nánast ekkert og raunar hefði þurft að flytja inn vinnuafl í stórum stíl.