Iceland Express hefur fallist á rök talsmanns neytenda og mun láta af því að merkja fyrirfram í valreit fyrir aukaþjónustu eins og forfallagjald á vefsíðu sinni. Í fréttatilkynningu frá talsmanni neytenda segir að þögn sé ekki sama og samþykki og að ekki sé heimilt að beita svonefndri neikvæðri samningsgerð í viðskipum við neytendur.
Í tilkynningunni segir „Iceland Express hefur nú fallist á tilmæli talsmanns neytenda þess efnis að látið verði af því „að valreitur fyrir kaup á viðbótarþjónustu á borð við forfallagjald sé fyrirfram útfylltur. Mælst er til þess að framvegis verði netsíður seljenda flugferða þannig að sérstakar aðgerðir þurfi til þess að neytandi teljist óska eftir viðbótarþjónustu og greiði fyrir hana."
Einnig var farið fram á „að í tengslum við valreit fyrir forfallagjald komi fram hvort til fellur kostnaður við breytingu á flugferð og hver hann er."
Iceland Express hefur fallist á tilmælin eftir að forsvarsmenn félagsins funduðu í fyrri viku með talsmanni neytenda, Gísla Tryggvasyni. Eftir að hafa á fundinum farið betur yfir sjónarmið að baki tilmælunum og rætt frekar sjónarmið félagsins hefur nú náðst sú niðurstaða að Iceland Express mun fara að tilmælunum; er nú unnið að því að breyta vefkerfi félagsins í því skyni.