Lög um lögheimili eru úrelt vernd fyrir sveitarfélög. Æskilegt er að fólk eigi kost á að eiga tvöfalt lögheimili og skipta útsvarstekjum sínum milli sveitarfélaga. Þetta fullyrðir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann segir að hann hafi rætt þessi mál við fjölda fólks, meðal annars þingmenn og sveitarstjórnarmenn, og margir þeirra taki undir þessa skoðun.
„Þetta getur verið gríðarlegt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin og ég hvet menn til þess að hugsa búsetumál alveg upp á nýtt," segir Haraldur og bætir við: „Ef fólk með tvöfalda búsetu flytur til dæmis lögheimili sitt af höfuðborgarsvæðinu og út á landsbyggðina en á samt sitt aðalheimili áfram á höfuðborgarsvæðinu getur það meðal annars skapað vandamál með skólagöngu barna þess."
Haraldur bendir á að fjöldi fólks hafi keypt hús í sveitum, búi þar og starfi hluta ársins og þiggi þjónustu. „Sú þróun að fólk geti átt tvö heimili er staðreynd og látum því lög um búsetu endurspegla raunveruleikann."
Nánar í Blaðinu