Þrettán lettneskir starfsmenn GT verktaka, sem starfa að byggingu Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar, hafa snúið sér til AFLs, starfsgreinafélag Austurlands vegna meintra brota vinnuveitanda þeirra á réttindum þeirra. Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, segir að um alvarleg brot sé að ræða.
Sverrir sagði, að mennirnir væru búnir að að vinna fyrir 135 þúsund krónur á mánuði, 12 stunda vinnudag sex daga vikunnar sl. fjórar vikur. Þeir hafi komið til landsins um svipað leyti og Vinnumálastofnun gaf GT verktökum heilbrigðisstimpil eftir að til stóð að stöðva starfsemi fyrirtækisins 6. september sl. „Fyrirtækið nýtti því greinilega ekki þann frest sem gefinn var þá til að skila gögnum til að koma sínum málum í lag," sagði Sverrir.
Lettarnir settu sig í samband við AFL með tölvupósti í fyrrinótt þar sem þeir skýrðu frá því að ekki væri allt með felldu varðandi launamál þeirra og að senda ætti þá úr landi með nánast engum fyrirvara. AFL sendi túlk í búðir við Hraunaveitu í gærkvöld og þar var unnt að staðfesta að ekki væri allt með felldu. Var Vinnumálastofnun í kjölfarið gert aðvart og í morgun hittu fulltrúar frá AFLi Lettana á Egilsstaðaflugvelli og komu í veg fyrir að mennirnir færu lengra.
Lettarnir hafa með aðstoð túlka rætt við lögmann AFLs í morgun og lögmaðurinn og Gissur Pétursson, forstjóri, Vinnumálastofnunar, funduðu einnig með sýslumanninum á Seyðisfirði og yfirlögregluþjóni þar nú skömmu eftir hádegið.
Sverrir segir AFL nú hafa útvegað Lettunum gistingu og fæði á Egilsstöðum uns málin skýrast. Búið sé að taka af þeim skýrslur, verið að undirbúa stefnu út af innheimtumálum.
Lettarnir segja sjálfir að um 40 manns starfi nú fyrir GT vertaka við Hraunaveitu, en fyrirtækið er undirverktaki Arnarfells. „Vonandi læra menn af þessu að vera ekki að gefa fyrirtækjum fresti" segir Sverrir Mar Albertsson."
Ekki hafa fengist viðbrögð frá GT verktökum.