Foreldrar á Seltjarnarnesi fá styrki og greiðslur til dagforeldra afnumdar

Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur samþykkt að veita foreldrum barna sem ekki hafa náð leikskólaaldri, eða eru ekki komin inn í leikskóla, skattfrjálsa styrki frá og með áramótum.

Styrkirnir verða í formi svokallaðra heimgreiðslna og eru veittar foreldrum eftir að fæðingarorlofstíma lýkur. Sambúðarfólk mun fá greitt frá 9 mánaða aldri barna og einstæðir foreldrar frá 6 mánaða aldri barna. Greitt er til foreldra þar til börnin fá inni á leikskóla á Seltjarnarnesi, lengst þó til 2ja ára aldurs, samkvæmt tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ.

Með fyrirkomulaginu er umsýsla bæjarins vegna ungra barna einfölduð til muna m.a. vegna þess að beinar greiðslur til dagforeldra verða afnumdar, samkvæmt tilkynningu.

Foreldrar geta ráðstafað heimgreiðslunum að vild, s.s. verið heima með börnunum, keypt þjónustu dagforeldra, leitað aðstoðar skyldmenna eða annað sem henta, samkvæmt tilkynningu.

Við ákvörðun um heimgreiðslur var tekið mið af þeim greiðslum sem nú eru inntar af hendi hjá Seltjarnarnesbæ vegna barna hjá dagforeldrum og í einkareknum leikskólum. Greiðslurnar taka tillit til hjúskaparstöðu foreldra, foreldra í námi og systkina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert