Yfirvöld á Sri Lanka hafa krafist þess að Bjarni Vestmann, sendifulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins, verði kallaður heim frá Sri Lanka eftir að hann heimsótti yfirráðasvæði tamílsku Tígranna á norðanverðri eyjunni og átti fund með S. P. Thamilselvan, einum helsta leiðtoga þeirra.
Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar hefur utanríkisráðuneyti Sri Lanka farið fram á það við íslensk yfirvöld að Bjarni verði kallaður heim. Þá segir í frétt AFP að Bjarni hafi komið til Sri Lanka með ferðamannaáritun og fengið far með eftirlitsmönnum SLMM yfir á yfirráðasvæði Tígranna.
„Ráðherrann fordæmdi algerlega framkomu herra Vestmann og krafðist þess að hann yrði kallaður heim,” segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Sri lanka vegna málsins. Þá segir að einnig hafi verið kvartað við SLMM yfir því að Bjarni skuli hafa verið fluttur í leyfisleysi yfir á yfirráðasvæði Tígranna.
Útlendingum og fréttamönnum er ekki heimilt að heimsækja yfirráðasvæði Tígranna á Sri Lanka nema með sérstöku leyfi yfirvalda á Sri Lanka.
Fréttin á vef tamílsku Tígranna