„Ég kannast ekki við hart hafi verið sótt að mér,“ segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur (OR), vegna fréttar þess efnis í Morgunblaðinu í dag að harkalegar deilur hafi orðið í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna um samruna Reykjavík Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE).
Að mati Vilhjállms felur samruni fyrirtækjanna tveggja ekki í sér stefnubreytingu í útrásarstefnu OR í orkumálum. Bendir hann á að Enex, sem er í eigu OR, hafi staðið í útrás undanfarna áratugi og varið til þess verulega miklum fjármunum.
„Ég tel þetta vera góðan samning og að með honum höfum verið að gæta hagsmuna Reykvíkinga sem eiga 94% hlut í OR. Í þessu samkomulagi erum við að fá viðurkennda þá reynslu og þekkingu sem OR er að koma með inn í þetta fyrirtæki sem nemur hvorki meira né minna en 10 milljörðum króna. Ef við hefðum ekki sameinast þá hefði aldrei orðið um þessi verðmæti að ræða.“