Auglýsing á vegum Kópavogsbæjar og Símans sem hefur birst að undanförnu í fjölmiðlum er byggð á röngum forsendum samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun. Í auglýsingunni og á vefsíðunni kopavogurlodir.is, lítur út sem svæðið sé skipulagt fyrir íbúðarbyggð. Svo er ekki þar sem svæðið er skipulagt sem vatnsverndarsvæði.
Í tilkynningu frá Skipulagsstofnun kemur fram stofnunin vilji vekja athygli á þessu með hagsmuni almennings að leiðarljósi.
Lögformlegt skipulagsferli vegna íbúðabyggðar ekki hafið
„Áður en byggingarréttur fyrir íbúðarlóðir verður til þarf að auglýsa og kynna breytingu á gildandi skipulagi svæðisins. Á svæðinu er í gildi svæðisskipulag sem auk samþykkis Kópavogsbæjar er háð samþykki annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Jafnframt þarf Kópavogsbær að auglýsa tillögu að aðalskipulagsbreytingu og nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Breyting á svæðis- og aðalskipulagi svæðisins er einnig háð staðfestingu umhverfisráðherra. Lögformlegt skipulagsferli vegna íbúðarbyggðar í Vatnsendahlíð er ekki hafið.
Skipulagsstofnun gerði þann 18. september sl. formlega athugasemd við Kópavogsbæ vegna framangreindrar auglýsingar. Þar sem Kópavogsbær hefur að engu haft þær athugasemdir sér Skipulagsstofnun sig knúna til að vekja athygli á málinu og upplýsa umsækjendur um að byggingarréttur sem nú er til úthlutunar og sölu í Vatnsendahlíð á sér ekki nauðsynlega lagastoð í skipulagi," samkvæmt tilkynningu frá Skipulagsstofnun.