Dæmd fyrir að stela áfengi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fjóra fyrrum starfsmenn Jóna Transport og Samskipa í skilorðsbundið fangelsi, 2-4 mánaða, fyrir að stela ítrekað áfengi úr birgðum, sem átti að farga. Tollvörður, sem ákærður var fyrir að vera í vitorði með fólkinu, var sýknaður

Brotin voru framin á árunum 2002-2005. Tveir karlmenn voru dæmdir í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi, þriðji karlmaðurinn í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi og kona í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Áfengið, sem fólkið var ákært fyrir að stela, fannst allt að heimilum þess.

Fram kemur í dómnum, að lögregla fékk árið 2005 upplýsingar um að starfsmenn í vörugeymslu Samskipa tækju þar ófrjálsri hendi áfengi sem flytja ætti í eyðingu hjá Sorpu. Ákveðið var að rannsaka málið nánar og urðu lögreglumenn vitni að því þegar áfengi var borið út úr vörugeymslu Samskipa og komið fyrir í bíl, sem ekið var að húsi í Hafnarfirði.

Eftir að áfengið hafði verið borið inn í bílskúr handtók lögreglan húsráðanda og ökumann bílsins. Í kjölfarið voru fleiri handtekin.

Tollvörður var ákærður fyrir að hafa veitt samþykki sitt eða látið hjá líða að gera athugasemdir við að starfsmennirnir tækju áfengisbretti. Dómurinn taldi það hins vegar ekki sannað og var tollvörðurinn sýknaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert