„Það eru um þúsund Litháar á Íslandi og það er alveg klárt að það er erfiðara fyrir Litháa að leigja íbúð í dag en það var í fyrradag. Traust gagnvart Litháum snarminnkaði," sagði Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, um áhrif þess að 14 Litháar hafa verið handteknir á síðustu dögum vegna umfangsmikilla þjófnaða hér á landi.
Einari finnst að það hafi verið óþarfi hjá fjölmiðlum og lögreglu að greina frá þjóðerni mannanna í sambandi við þetta mál. Þetta væru einstaklingar og menn yrðu að hafa í huga hag samlanda þeirra sem hér búa og hafa ekkert unnið sér til sakar. Það væri ósanngjarnt að þeir yrðu fyrir ónæði af því að einhverjir af sama þjóðerni höguðu sér illa.
„Ég veit til þess að meirihluti þeirra sem eru handteknir í miðbænum um helgar fyrir drykkjulæti eru ekki Reykvíkingar, þeir eru yfirleitt frá einhverjum sveitarfélögum á suðvesturhorninu. En það er enginn að nefna það, að það hafi verið tveir Akurnesingar, þrír Keflvíkingar og fjórir Selfyssingar handteknir fyrir að kasta af sér vatni," sagði hann. Slíkt myndi heldur ekki bæta umræðuna á nokkurn hátt heldur eingöngu kynda undir andúð Reykvíkinga á nágrönnum sínum. Almennt ætti ekki að nefna þjóðerni þeirra sem komast í kast við lögin.
Aðspurður hvort honum fyndist það skipta máli að í þessu tilviki virðist sem um sé að ræða þjófagengi sem kom hingað gagngert til að stunda þjófnað, sagði Einar að þetta væri alltaf matsatriði. Ef vafi væri fyrir hendi ætti fjöldinn að njóta vafans. Skárra hefði verið að segja að um menn af erlendu bergi brotna hefði verið að ræða.
Einar sagði að umræða um Litháa síðustu árin hefði mikið snúist um skipulagða glæpastarfsemi. Lögregla ætti nokkra sök á þessu því hún hefði kastað fram hálfkveðnum vísum í þessum efnum.