Umhverfisstofnun tók nýlega þátt í norrænu verkefni þar sem mælt var magn kvikasilfurs í urriða til að kanna áhrif umhverfis á upptöku þess í fiski. Sýni voru tekin af urriða í Elliðavatni, Mývatni, Stóra-Fossvatni og Þingvallavatni.
Magn kvikasilfurs sem mældist í fiski úr þessum vötnum var á bilinu 0,01–0,05 mg/kg sem er mjög lágt gildi. Undantekning var þó stórurriði úr Þingvallavatni en í honum mældist kvikasilfur á bilinu 0,2 – 0,9 mg/kg. Um er að ræða 60–90 sm langan fisk og um 4 til 7 kg að þyngd.
Umhverfisstofnun segir, að hér á landi gildi reglur um hámarksmagn aðskotaefna í matvælum. Hafi matvæli hærri styrk megi ekki dreifa eða selja viðkomandi vöru. Samkvæmt reglugerðum um aðskotaefni í matvælum, er um tvö hámarksgildi fyrir kvikasilfur að ræða, annars vegar lægra hámarksgildi fyrir fisk sem oft er neytt, og hins vegar hærra hámarksgildi fyrir fisktegundir sem sjaldnar er neytt, eins og hákarl og stórlúðu. Hámarksgildi fyrir laxfiska, sem flokkast undir fisk sem oft er neytt, er 0,5 mg/kg.
Nánari umfjöllun Umhverfisstofnunar