Launahækkanir tryggi kaupmáttaraukningu

Frá þingi Starfsgreinasambandsins.
Frá þingi Starfsgreinasambandsins. mbl.is/RAX

Á þingi Starfsgreinsambandsins, sem lauk í dag, var samþykkt ályktun um kjaramál þar sem lögð er áhersla á að í komandi kjarasamningum verði samið um launahækkanir sem tryggi launafólki kaupmáttaraukningu, og um leið verði hægt að koma á efnahagslegum stöðugleika.

Segir í ályktuninni, að afar mikilvægt sé að stórbæta kjör þeirra sem lægst hafi launin. Slíkt þurfi að gera með margþættum aðgerðum í þríhliða samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Leiðrétta þurfi misréttið í samfélaginu og ná þarf sátt um að kaupmáttur lægstu launa hækki umtalsvert meira en annarra.

Þá þurfi að lækka skattbyrgði lágtekjufólks samhliða því þarf að stórefla velferðarkerfið m.a. með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur. Jafnframt þurfi ríki og sveitarfélög að draga úr þjónustugjöldum.

„Þing Starfsgreinasambands Íslands gerir þá kröfu að samfélagið allt sýni sömu ábyrgð og launafólk hefur verið krafið um. Sömuleiðis að hálauna- og stóreignamenn raki ekki til sín öllum þeim verðmætum sem launafólk hefur skapað samfélaginu með vinnu sinni. Launafólk á ekki eitt að bera ábyrgðina á stöðuleikanum," segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert