Byggingarétti á lóðum í Vatnsendahlíð verður úthlutað með fyrirvara um samþykkt deiliskipulags, samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ. Fyrr í dag sendi Skipulagsstofnun frá sér tilkynningu þar sem fram kom að auglýsing á vegum Kópavogsbæjar og Símans sem hefur birst að undanförnu í fjölmiðlum sé byggð á röngum forsendum.
Í auglýsingunni og á vefsíðunni kopavogurlodir.is, lítur út sem svæðið sé skipulagt fyrir íbúðarbyggð. Svo er ekki þar sem svæðið er skipulagt sem vatnsverndarsvæði, samkvæmt tilkynningu frá Skipulagsstofnun.
Fjöldamörg fordæmi fyrir auglýsingu með fyrirvara
Í tilkynningu frá Kópavogsbæ kemur fram að svo sem Skipulagsstofnun er kunnugt eru fjölmörg fordæmi fyrir því að sveitarfélög auglýsi úthlutun á byggingarrétti með slíkum fyrirvara. „Er því vandséð að Skipulagsstofnun hafi yfirlýsta hagsmuni almennings að leiðarljósi þegar hún sendir út fréttatilkynningu fáeinum klukkustundum áður en umsóknarfrestur um úthlutun rennur út um að byggingarétt í Vatnsendahlíð skorti nauðsynlega lagastoð í skipulagi.
Skipulagsstofnun er einnig kunnugt um að unnið hafi verið að því undanfarin ár að aflétta vatnsvernd á svæðinu og er færsla vatnsverndarlínu á lokastigi.
Fréttatilkynning Skipulagsstofnunnar er villandi vegna þess að með henni er gefið til kynna að vakin sé athygli á nýjum upplýsingum umfram þeim sem fram koma í auglýsingum Kópavogsbæjar. Svo er aftur á móti ekki.
Kópavogsbær vill að gefnu tilefni ítreka að umsóknum um úthlutun á byggingarétti á lóðum í Vatnsendahlíð skuli skila hjá tæknideild Kópavogs, Fannborg 2, 3. hæð, fyrir klukkan 14 í dag," samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ.