Pyntingar skila ekki árangri við yfirheyrslur

Gísli H. Guðjónsson, prófessor í réttarsálfræði við Kings College í London, segir pyntingar yfirleitt ekki skila árangri við yfirheyrslur. Gísli fjallaði um þær áskoranir og vandamál sem geta komið upp í tengslum við yfirheyrslur á meintum hryðjuverkamönnum í erindi sem hann flutti á ráðstefnu um glæpi og glæpamenn, sem fram fer í Háskólanum í Reykjavík.

Hann segir suma vera á þeirri skoðun að pyntingar séu nauðsynlegar t.d. þegar þörf er á því að fá mikilvægar upplýsingar fljótt, t.d. ef sprengju hafi verið komið einhversstaðar fyrir. Hann segir hinsvegar óskynsamlegt að menn beiti pyntingum við yfirheyrslur þar sem niðurstöðurnar eru yfirleitt neikvæðar.

Mjög hefur verið deilt um lögmæti þess að pyntingum sé beitt þegar yfirheyra á meinta hryðjuverkamenn. Víða hafa sprottið upp harðar deilur, þar á meðal á Íslandi, varðandi það hvernig bandaríska leyniþjónustan CIA komi fram við fanga sem grunaðir eru um hryðjuverk.

Gísli segir einnig að pyntingar leiði til þess að menn fái rangar upplýsingar þar sem fólk brotni einfaldlega undan álaginu og segir hvað sem er til þess að pyntingunum verði hætt. Þá segir Gísli að pyntingar séu ekki til þess fallnar að hryðjuverkamönnum fækki heldur þvert á móti geti þeim fjölgað. Menn einfaldlega leiti hefnda.

Í erindi sínu í dag benti Gísli á að breyttir tímar krefjist breyttra aðferða við yfirheyrslur. Hann segir bresku lögregluna búa yfir mikilli þekkingu við að yfirheyra írska hryðjuverkamenn, en vegna breytts ástands - bæði vegna friðar á Norður-Írlandi og árásanna á Bandaríkin þann 11. september 2001 - sé hryðjuverkaógnin orðin önnur eða al-Qaeda hryðjuverkasamtökin. Gísli segir að lögreglan þurfi því að beita allt annarri yfirheyrslutækni þegar hún yfirheyrir meinta al-Qaeda liða.

Hann segir þessa einstaklinga yfirleitt vera vel gefna og jafnvel vel menntaða. Þeir séu ekki persónuleikatruflaðir í okkar skilningi. Þá hafi þeir ákveðna skoðanir og vissa hugsun og séu auk þess reiðubúnir að fórna sér fyrir málstaðinn. Það sé því mikilvægt fyrir lögregluna að koma sér inn í hugsunarhátt þessa fólks til að skilja það.

Aðspurður segir hann íslensk yfirvöld verða að gera sér grein fyrir því að hryðjuverk geti verið unnin á Íslandi. Þau verði að taka málið alvarlega og fylgjast vel með.

Hann segir hinsvegar að hér megi búast við því í framtíðinni að skipulögð glæpastarfssemi reyni að festa rætur á Íslandi, þar sem útlend glæpasamtök komi til landsins til að setja upp sína starfssemi.

Vefur glæparáðstefnunar í HR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert