Skipulagsstofnun telur að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag. Þetta kemur fram í mati stofnunarinnar á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík þar sem gert er ráð fyrir að ársframleiðsla verði allt að 250.000 tonn.
Skipulagsstofnun bendir á í áliti sínu að þeir virkjunarkostir sem Hitaveita Suðurnesja hyggst nýta vegna fyrsta áfanga álversins eiga eftir að fara í umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og suma á einnig eftir að fjalla um samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Sveitarfélögin þurfi að huga vel að þessari stöðu þegar kemur að leyfisveitingum.
Skipulagsstofnun telur að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggur fyrir.
Skipulagsstofnun telur að áhrif álverksmiðju í Helguvík á vinnumarkað komi að miklu leyti til með að ráðast af stöðu atvinnumála á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild bæði á byggingartíma og þegar rekstur hefst.
Losunarheimildir liggi fyrir áður en framkvæmda- og byggingarleyfi verður veitt
Skipulagsstofnun bendir á að ráðgert er að fá efni til grófjöfnunar lóðar álversins frá framkvæmdum við stækkun Helguvíkurhafnar og því þurfi áform um stækkun hafnarinnar að vera skýr áður en framkvæmdir við byggingu álversins verða leyfðar. Fyrirhugaður rekstur Norðuráls Helguvík sf. er háður 7. gr. laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda. Skipulagsstofnun telur því að áður en Norðuráli Helguvík sf. verður veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fær þá losunarheimild sem það þarf eða hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.