Starfsemi Norðanflugs á Akureyri liggur niðri um þessar mundir vegna þess að Flugmálastjórn setti bann á það, af öryggisástæðum, að flugvélin, sem fyrirtækið hefur notað, athafni sig hér á landi.
Um er að ræða rússneska AN-12 vél, sem komin er nokkuð til ára sinna. Norðanflug hefur lagt fram stjórnsýslukæru á hendur Flugmálastjórn og er hún nú til meðferðar í samgönguráðuneytinu. Þaðan fengust ekki upplýsingar um það í gær hvar málið væri statt í kerfinu.
Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Flugmálastjórnar Íslands, vildi í gær ekki tjá sig um þetta einstaka mál en staðfesti þó að stjórnsýsluskæra hefði borist ráðuneytinu.
Starfsemi Norðanflugs hófst í ársbyrjun þegar AN-12 vélin hóf sig til flugs í fyrsta skipti frá Akureyrarflugvelli með 11 tonn af ferskum fiskflökum frá Samherja, en flogið var til Oostende í Belgíu. Vélin flaug síðan reglulega þessa sömu leið, þrisvar í viku, fram á sumar.
Í haust, þegar flug átti að hefjast á nýjan leik að loknu sumarleyfi í fiskvinnslu Samherja á Dalvík, ákvað Flugmálastjórn að veita ekki leyfi fyrir því að vélin fengi að lenda hér á landi.
Þegar starfsemin hófst sögðust forsvarsmenn Norðanflugs sjá mikil tækifæri í fragtflugsrekstri um Akureyrarflugvöll og vélin, AN-12, ætti sér langa sögu í fragtflugi og hentaði aðstæðum á Akureyri vel með tilliti til skjótrar hleðslu og afhleðslu.