Finnur fyrir mikilli reiði í samfélaginu

Svandís Svavarsdóttir fór yfir sameiningu GGE og REI á opnum …
Svandís Svavarsdóttir fór yfir sameiningu GGE og REI á opnum fundi í morgun. Sverrir Vilhelmsson

Fjörugar umræður sköpuðust á opnum fundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem haldin var fyrir hádegið um sameiningu Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest. Svandís Svavarsdóttir fulltrúi VG í stjórn Orkuveitunnar sagðist hafa fengið mikinn fjölda tölvubréfa og símtala vegna málsins. „Ég sem stjórnmálamaður hefur aldrei fundið fyrir eins mikilli reiði úti í samfélaginu, eins mikilli beiskju meðal almennings sem hver á fætur öðrum sendir mér tölvubréf.“

Svandís sagði bréfin berast frá fólki út um allt land, fólki sem ekki ætti neina beina hagsmuni af Orkuveitunni. „Þetta fólk sér þennan gjörning í miklu stærra samhengi, sem birtingamynd pólitísks siðleysis.“

Á meðal þess sem spurt var um á fundinum er eignarhlutur Reykjavíkurborgar í hinu nýja sameinaða félagi. Hlutur ríkisins er 32% og benti Svandís á að hefði borgin átt tæpum tveimur prósentum meira, væri ekki hægt að breyta samþykktum félagsins án samþykkis frá borginni. „Það þýðir meðal annars að við höfum afsalað okkur þekkingunni. Hún er á meðal Visakorta í vasanum á Hannesi Smárasyni og öllum hinum kapítalistadrengjunum. Þekkingin sem við söfnuðum saman í okkar fyrirtæki og þekking sem ekki er til annars staðar í heiminum. Það er búið að gefa hana inn í fyrirtæki sem við ráðum ekkert í.“

Einnig var rætt um fyrirhugaða málshöfðun Svandísar og VG vegna fundarins, sem sagður er hafa verið boðaður á ólögmætan hátt. Í samþykktum Orkuveitunnar kemur fram að boða verði til eigendafunda með viku fyrirvara. Svandís var hins vegar boðuð á fundinn með fimmtán klukkustunda fyrirvara, og var henni neitað um upplýsingar um fundinn fyrr en sama dag og hann var haldinn.

Svandís sagði einnig aðspurð að Vinstri græn muni greiða kostnað vegna málsins, og að borgarstjórnarflokkurinn eigi fyrir því. Hugsanlega verði þó leitað styrkja einnig.

Fundurinn var nokkuð fjölmennur og fjörugar umræður sköpuðust.
Fundurinn var nokkuð fjölmennur og fjörugar umræður sköpuðust. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka