Ísland hefur siðferðislega skyldu andspænis vaxandi loftslagsbreytingum til að koma á framfæri einstakri tækni sinni við nýtingu jarðhita til orkuframleiðslu. Þetta kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra sem flutti ræðu á fundi vísinda- og tækninefndar Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins um orku og framlag Íslendinga.
Össur segir Íslendinga geta með þeim hætti innt af höndum mjög mikilvægt framlag til baráttu þjóðanna gegn hlýnun jarðar. Hann segir framlag Íslendinga vera miklu mikilvægara en smæð þjóðarinnar gæti gefið til kynna.
Í þessu skyni hafi Íslendingar blásið til sameiginlegrar sóknar ríkisstjórnar, orkufyrirtækja í félagslegri eigu, háskóla og fjársterkra alþjóðlegra fjármálastofnana, sem miði að því að flytja í senn fjármagn og nýja tækni á sviði orkuvinnslu úr jarðhita til þróunarlandanna.
Fram kom í máli ráðherra að a.m.k. 140 lönd búa yfir jarðorku í einhverjum mæli sem hægt væri að nýta til orkuframleiðslu.
Össur benti á að Íslendingar séu nú þegar með þessum hætti á sviði jarðorkuvinnslu í samstarfi við, eða að hefja samstarf, við lönd einsog Kína, Rússland, Indónesíu, Filippseyjar, El Salvador, svo nokkur séu nefnd úr röðum þróunarlanda, og einnig við lönd einsog Þýskaland og Bandaríkin.
Þá segir ráðherra að splunkuný tækni, sem Íslendingar séu að þróa – djúpborunartæknin – geti valdið straumhvörfum í orkuvinnslu úr jarðvarma í heiminum. Nýleg skýrsla MIT hafi leitt í ljós, að með því að innleiða hana gætu Bandaríkin fullnægt 10% af þörf sinni fyrir raforku.