Kjörin verði stórbætt

Frá kjaramálaráðstefnu kennara í gær.
Frá kjaramálaráðstefnu kennara í gær. mbl.is/Frikki
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur og Ómar Friðriksson

Tvö af stærstu launþegasamtökum landsins, með yfir 62 þúsund félagsmenn að baki sér, sendu í gær frá sér afdráttarlaus skilaboð um að stórbæta þyrfti kjör launþega innan þeirra raða í komandi kjarasamningum.

Krefjast skattalækkana og hærri bóta

Þing Starfsgreinasambands Íslands, en innan raða þess eru um 52 þúsund félagsmenn, krefst þess að kjör þeirra sem lægst hafa launin verði stórbætt og skattbyrðin minnkuð meðal annars með hækkun barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta. Gæta þurfi að því að hálauna- og stóreignamenn raki ekki til sín öllum þeim verðmætum sem launafólk hefur skapað samfélaginu.

Kennarasamband Íslands með ríflega 10 þúsund félagsmenn í aðildarfélögunum, hélt kjaramálaráðstefnu í gær og þar kom fram að kennarar hafa miklar áhyggjur af stöðu kjaramála og að flótti úr stéttinni væri yfirvofandi ef kjörin yrðu ekki bætt.

Hafa ekki efni á að fara í kennslu

Fulltrúar á þingi SGS voru á einu máli um að mikil samstaða og eindrægni væri í röðum verkafólks. Í ályktun sem samþykkt var er þess einnig krafist að stjórnvöld axli ábyrgð sína á hagstjórninni og komi á efnahagslegum stöðugleika með lítilli verðbólgu, hóflegum vöxtum og stöðuðum gjaldmiðli. Þingið krefst þess einnig að samfélagið allt sýni sömu ábyrgð og launafólk hefur verið krafið um.

Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, segir að hljóðið í kennurum sé þungt og flótti sé úr stéttinni. Kennarar eiga lausa samninga á næsta ári og sagði Eiríkur að þá yrði að semja þannig að flóttinn úr stéttinni tæki enda. „Það er ljóst að fólk sem búið er að vera í háskólanámi í þrjú til fimm ár hefur ekki efni á að fara í kennslu," sagði Halldóra Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Hvolsskóla á Hvolsvelli, í samtali við blaðamann á ráðstefnunni. „Ég er að bíða. Ég borga ekki yfirdráttinn með launum," sagði Gissur Jónsson, kennari í Sunnulækjarskóla á Selfossi, um stöðuna í kjaramálum kennara.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert