Fleiri starfsmenn GT verktaka leita eftir aðstoð hjá AFLi

Frá Kárahjúkasvæðinu
Frá Kárahjúkasvæðinu mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Tíu starfsmenn GT verktaka / Nordic Construction við Hraunárveitu og Kárahnjúka hafa leitað til AFLs, starfsgreinafélags, eftir aðstoð við að innheimta laun sín. Í tilkynningu frá AFLi kemur fram að fulltrúar fyrirtækjanna hafi komið á hótelið þar sem 13 erlendir starfsmenn fyrirtækjanna sem í síðustu viku leituðu eftir aðstoð hjá AFli og hótuðu þeim.

„Í morgun kom fulltrúi annars hvors ofangreindra fyrirtækja á hótel það sem 13 erlendir starfsmenn fyrirtækjanna og félagsmenn AFLs gista en þeir hafa nú þegar óskað aðstoðar og gefið skýrslur til lögreglu um þvinganir og skjalafals. Í morgun var þessum mönnum hótað m.a. því að þeir myndu aldrei fá vinnu hér á landi né í Lettlandi og þeir fengju ekki farseðla sína afhenta og fleira í þeim dúr. Þeim var jafnframt boðið að fá farseðla sína afhenta og reynt að bera á þá fé og áfengi – til að fá þá til að yfirgefa landið strax. Þar með yrði komið í veg fyrir að þeir gæfu frekari skýrslur fyrir dómi eða lögreglu.

Átta þessara manna létu undan þrýstingi og fóru og eru nú í Reykjavík – í umsjón GT verktaka / Nordic Construction. Lögmaður AFLs, Eva Dís Pálmadóttir hdl., hefur í dag kært hótanirnar sem áttu sér stað í morgun.

Fimm starfsmannanna ætla að standa við kærur sínar og í dag bættust 10 í viðbót í hópinn. AFL hefur farið fram á við lögreglu að ferð þessara manna sem fóru, yrði stöðvuð þar sem þeir eru mikilvæg vitni í kærumáli um skjalafals, hótanir og fleira. Því hefur verið hafnað. Auk þess hefur verið lögð fram beiðni til Héraðsdóms Austurlands um að þeir gefi skýrslu sem vitni í einkamálum samstarfsmanna sinna.

Frásagnir mannanna eru allar á eina lund – þeir voru þvingaðir með hótunum um brottrekstur til að kvitta fyrir móttöku mun hærri launa en þeir fengu greidd – í Lettlandi var samið við þá um ca. 135.000 kr. mánaðarlaun fyrir dagvinnu. Þeir unnu síðan mun meira. Meðalvinnutími þessara manna var um 310 klst. á mánuði og tímalaun því að meðaltali 435 kr. hvort heldur unnið var að næturlagi eða að degi til.

Tvö lykilvitni í málinu eru túlkar GT verktaka – sem sáu um að deila út launum og fá undirskriftir á kvittanir fyrir launagreiðslum. Okkur er kunnugt um að þeir verða sendir úr landi á næstu dögum ef ekki í dag. Við höfum farið fram á að teknar verði skýrslur af þeim án tafar. Annar þessara aðila hefur þegar gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem hann viðurkennir að hafa látið starfsmenn kvitta undir skjöl þess efnis að þeir hafi móttekið mun hærri greiðslur en finna mátti í meðfylgjandi umslögum og stundum voru yfir höfuð ekki umslög. Nokkrir starfsmenn fengu í fyrstu greiðslur inn á lettneska bankareikninga en voru látnir kvitta fyrir móttöku á mun hærri fjárhæð en var lögð þangað inn.

Ljóst er samkvæmt lögregluskýrslum að launagreiðslur fóru fram í umslögum merktum GT verktökum og að mennirnir töldu sig í vinnu þar – þó svo að fyrirtæki neiti því nú. Ennfremur að öll gögn málsins sem send hafa verið með símbréfi hafa borist af skrifstofu GT verktaka. Samkvæmt samkomulagi því sem Vinnumálstofnun gerði við Arnarfell í byrjun septembermánaðar þar sem Arnarfell ábyrgðist réttar launagreiðslur GT verktaka og þjónustuaðila þeirra, munu innheimtumál AFLs snúast m.a. gegn Arnarfelli – en kærur um þvinganir gegn GT / Nordic Construction," samkvæmt tilkynningu frá AFLi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert